Færsluflokkur: Bloggar

Fáfræði forsvarsmanna stjórnvalda

Björgin G. vissi ekkert um ekki neitt eins og kom fram í ágætri frétt í sjónvarpinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir virðist ekki hafa vitað neitt og nú kemur Geir Harde fram og segir að enginn hafi vitað neitt um neitt eða neinn. Voru stjórnvöld algjörlega sofandi eða er fáfræði forsvarsmanna stjórnvalda algjör? Ég held að það sé verið að ljúga að okkur í því trausti að við trúum ekki neinum af þeim sem stjórnuðu bönkunum. Orð gegn orði. Í þessu tilfelli treysti ég ekki Geir Harde.
mbl.is Vissi ekki af tilboði FSA vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pressan minnkar þá í Bretlandi

Þetta eru góðar fréttir fyrir þá englendinga sem eru í jólainnkaupum og geta nú keypt jólagjafir eða jafnvel gefið í safnanir eins og svo algengt er í London. Samskipti landanna tveggja geta nú jafnvel orðið betri nú þegar sparifjáreigendur hafa fengið sitt. Icesave-deilan virðist því ekki vera jafn alvarlegt milliríkjamál og menn héldu. Þökkum fyrir það en ég hvet alla til að mæta á Bessastaði klukkan 14 í dag til að hvetja forsetann til að samþykkja ekki fjárlagafrumvarpið.
mbl.is Icesave innlán greidd út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stormurinn víðar td í Glitni

Í dag tæmi ég reikninginn minn í Glitni til að mótmæla bruðlinu og ruglinu sem þar fer fram. Klukkan 12 tek ég út það litla sem ég á en ég vona að fleiri fylgi mér og mótmæli jólaóróunum og jólakúlunum sem þeir eru að senda út sem gjafir fyrir utan ruglið í bankanum sjálfum. Skuldirnar mínar verða reyndar eftir en það er seinni tíma mál. Fyrst ætla ég að taka af þeim peninginn og nú hef ég látið flytja launin mín úr bankanum og fæ ávísun frá vinnunni sem ég skipti svo í bara einhverjum bankanum. Það er stormur víðar en í veðrinu.
mbl.is Asahláka og stormviðvörun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bólgan á Bessastöðum

Verðbólgan er að sliga okkur og stjórnvöld sitja hjá, lækka framlög til Háskólans og hlæja framan í okkur þegar við krefjumst kosninga. Bólgan er ekki síst á Bessastöðum þar sem forréttindastéttin hefur aðsetur. Mætum á Bessastaði í dag klukkan 14 og mótmælum fjárlögunum.
mbl.is Verðbólgan mælist 18,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engir skór í dag, kannski á mánudag

Ég gleymdi að taka með mér skó til að henda í alþingishúsið. Ætli það hefði svo ekki líka farið fyrir mér eins og íraska blaðamanninum, ég hefði örugglega ekki hitt húsið.

Ég er annars farinn að upplifa mig sem aðgerðarsinnaðan mótmælanda ég er ekki lengur óvirkur og þögull. Hef hingað til staðið til hliðar og fylgst með en ekki lengur. Mér er nóg boðið af ríkisstjórn, fjármálaeftirliti og alþingi. Tek örugglega þátt í aðgerðum á mánudag þegar ég veit hvert ég á að mæta.  Kannski ég taki með mér skó þá Tounge


mbl.is Þögul mótmæli á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningin í mæðrastyrksnefnd

Það væri kannski hugsun að peningarnir fyrir Kaupþing í Lúxemborg renni til mæðrastyrksnefndar. Ekki að þeir fari í jólagjöf frá bankanum.
mbl.is Sölu á Kaupþingi í Lúx að ljúka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sendum þá í skóla

Þeir þurfa að setjast á skólabekk forsvarsmenn stjórnarflokkana og læra að koma fram við okkur fólkið af kurteisi og muna að þau eru þarna í okkar umboði, ekki við í þeirra.
mbl.is Mótmæla niðurskurðinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En samþykktum við kaupréttinn?

Ég skil ekki enn þá þögn sem ríkir um þá ótrúlegu aðgerð innan Kaupþings að fella niður kaupréttarsamninga, hætta svo við allt saman í skjóli nætur, fá áminningu frá Kauphöllinn og öllum fjölmiðlum er skítsama um svona glæpastarfsemi. Eru íslenskir fjölmiðlamenn á launum hjá Kaupþingi?
mbl.is Lán til Íslendinga samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein áramótaveisla Kaupþingsforstjóra

315 milljónir í sekt er hlægilega lítið. Þetta er eins og ein áramótaveisla Ármanns sem var forstjóri Kaupþings í London og fékk Tom Jones og Duran Duran til að skemmta nýríku forstjórunum. Alveg markaðsmisnotkun og þetta nær varla hlutabréfakaupum Birnu í Glitni (sem hún þurfti reyndar ekki að borga). Er þetta ekki svipuð upphæð og Glitnir ætlar að nota til að fela nafnið sitt og breyta í Íslandsbanka? Hlægilegt leyfi ég mér að segja.
mbl.is Brot Haga alvarlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sami söknuður hjá Jóni Ásgeiri?

Söknuður tekur á sig ýmsar myndir. Ég er viss um að Jón Ásgeir og Reynir Trausta sakna þess að þessari færslu á Eyjunni hafi ekki verið eytt.

 

Þetta er bara skyldulesning:

 

Minni ritstjóra

Bjarni Brynjólfsson, fyrrverandi ritstjóri Séð og heyrt, skrifar þessa grein

--- --- ---

Mikael Torfason rekur ekki minni til þess að hafa stöðvað ákveðnar fréttir frá Símoni Birgissyni þegar hann var ritstjóri DV ásamt Jónasi Kristjánssyni. Hann man heldur áreiðanlega ekkert eftir því að hafa verið starfsmaður Nyhedsavisen í Danmörku. Þar var honum komið fyrir eftir skandalinn sem deyddi DV áður en Baugsmönnum fannst þarft að endurvekja það að nýju til að standa í baráttunni gegn Davíð Oddssyni og fleirum sem þeir töldu að stæðu í vegi gegn hringamyndun og auðsöfnun þeirra sjálfra. Mikael, líkt og Gunnar Smári Egilsson tók því virkan þátt í útrásinni sem lendir nú á herðum íslensku þjóðarinnar.
Mikael man auðvitað heldur ekkert eftir því að hann var kallaður heim frá Danmörku til að ritstýra Séð og Heyrt og gerast aðalritstjóri Tímaritaútgáfunnar Fróða. Mér hafði þá verið sagt upp störfum á Séð og Heyrt og hné látið fylgja kviði svo ekki sé meira sagt.

Og skal nú greint frá því hvernig Baugur sölsaði undir sig nánast síðustu leifarnar af frjálsum fjölmiðlum að undanskildu Morgunblaðinu og  Ríkisútvarpinu sem nú á að veikja stórkostlega.

Nokkru áður en mér var sagt upp störfum hjá Fróða kom Reynir Traustason að máli við mig.  Hann var þá ritstjóri Mannlífs. Reynir hafði þær fréttir að færa að Mikael og Gunnari Smára Egilssyni hefði sinnast illilega úti í Danmörku og Mikael langaði  heim. Það fylgdi sögunni hjá Reyni að Mikki væri rosalega hrifinn af Séð og Heyrt.  Ég lét mér fátt um finnast. Rúmlega mánuði síðar var hann orðinn ritstjóri blaðsins og sestur inn á skrifstofuna mína.  Ég rak hann út enda var þetta lítil skrifstofa. Mitt síðasta verk var að skrifa forsíðufrétt um að Jón Gerald Sullenberger hefði selt bátinn með stafsetningarvillunni, Thee Viking, sem þeir feðgar Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson höfðu átt á laun úti í Flórída. Þegar Séð og Heyrt birti fyrst fregnina um Thee Viking  á árinu 2002 neituðu þeir að eiga snekkjuna og tóku svo blaðið úr sölu í  Bónusbúðunum. Nokkru síðar fóru þeir í málaferli úti í Flórída til að ná bátnum af Jóni Gerald en höfðu ekki erindi sem erfiði og skíttöpuðu málinu. Bandarískt réttarkerfi var greinilega ekki jafn ginkeypt fyrir bullinu í þeim og dómarar hér á landi.

Eignarhaldið á Tímaritaútgáfunni Fróða var eitthvað á reiki þarna á sumarmánuðum 2006.

Stjörnulögfræðingurinn Sigurður G. Guðjónsson, neitaði í fyrstu að vera kaupandinn, en svo gekkst hann við því blessaður öðlingurinn, en ekki átti hann fyrirtækið lengi því áður en árið var liðið var fyrirtækið komið í eigu Baugs.

Fyrst átti sér hins vegar stað all athyglisverður millikafli. Reynir Traustason sagðist vera mjög ósáttur við ægivald  aðalritstjórans Mikka og var sagður hafa rokið burt í fússi. Fljótlega kom í ljós að hann hafði í hyggju að stofna nýjan fjölmiðil með aðstoð fjársterkra aðila. Hann gat því miður ekki greint frá því hverjir þessir aðilar voru. Ekki alveg strax. Það reyndist auðvitað vera hinn vammlausi og fjölmiðlaelskandi auðhringur Baugur. Hjálmar Blöndal var fenginn til að stýra útgáfufélaginu sem var reyndar nafni hans og hét Hjálmur.  Hann hafði þá stundað óskilgreind störf fyrir Hrein Loftsson um tíma. Ekki veit ég hvað Hjálmar fékkst við þar.

Reynir stofnaði sem sagt fjölskyldutímaritið Ísafold og voru geðþekku feðgarnir Reynir og Jón Trausti ritstjórar. Útgáfan var til húsa við Laugaveg þar sem Menningarstofnun Bandaríkjanna hafði aðsetur á sínum tíma. Ég kom þarna við fyrir forvitnis sakir enda var ég atvinnulaus og var áhugasamur um hvað Reynir væri að bralla. Hann hafði líka af og til heyrt í mér til að athuga hvort ég væri ekki áreiðanlega á lausu. Þetta var sæmilega flott skrifstofa með rauðum leðursófa og Reynir skartaði rauða kúrekahattinum sem hann hafði keypt í Vinnufatabúðinni.  Í einu af þessum samtölum tjáði hann mér að fólki væri alveg sama þótt Baugur ætti fjölmiðla og það marga. Það væri bara þannig stemmning í þjóðfélaginu.

Mér þótti hins vegar forvitnilegt hvers vegna Baugur vildi vera báðum megin borðsins þarna líka eins og á svo mörgum öðrum sviðum í samfélaginu. Hvers vegna að eiga tvær tímaritaútgáfur?  Þessa og svo öll tímaritin á 365. Þarna var nefnilega ekki komið í ljós ennþá hver var bak við tjöldin í kaupunum á Fróða. Mig grunaði það og margir voru á sama máli en það var bara ekki alveg komið í ljós. Þetta var svona svipað og með eignarhaldið á Fréttablaðinu eftir að það var endurreist eftir nærri 500 milljón króna gjaldþrot.

Lítum aðeins á forsöguna. 365 hafði farið mikinn í samkeppni við Tímaritaútgáfuna Fróða og stofnað nokkur blöð sem hreinlega var ætlað að setja tímarit Fróða á hausinn. Hér og Nú, Sirkus og blað um hús og hýbýli voru stofnuð og fóru mikinn á markaði en ekki með tilætluðum árangri. Titlarnir voru auglýstir gegndarlaust í hinum öflugu miðlum 365, með heilsíðum í Fréttablaðinu og DV, á Stöð 2, Bylgjunni, FM957 og jafnvel Léttbylgjunni. Þrátt fyrir allt þetta húllumhæ markaðsrisans náðu tímaritin lítilli sem engri fótfestu. Þau höfðu þó tilætluð áhrif að draga úr framlegð tímaritanna sem Fróði gaf út. Fróði tapaði og tapaði.  Alveg eins og Mogginn tapaði og tapaði í samkeppni við Fréttablaðið.  Í þessum leik var öllum ráðum beitt. T.d. fengu allir blaðamenn Séð og Heyrt atvinnutilboð frá  tímaritum 365 nokkrum vikum áður en þau hófu göngu sína. DV þeirra Mikka og Jónasar stundaði það einnig að tæma skúbbin okkar úr heimi hinna „frægu og ríku“ á fimmtudögum og föstudögum án þess að geta heimilda, væntanlega til að draga úr sölu.

Kranablaðamennska? Já, eins og hún gerist hreinræktuðust.

Í raun var þarna beitt sömu aðferðum og höfðu dugað Jóni Ásgeiri vel í útrýmingarherferð hans á „kaupmanninum á horninu“ í öllum meginatriðum.

Sannleikurinn var hins vegar sá að 365 töpuðu gegndarlaust á tímaritaútgáfunni. Það skipti bara engu máli, þetta var 2005 og lánalínurnar hjá bönkunum ennþá opnar. Og feitir bitar í vændum fyrir gíruga viðskiptajöfra.

Þetta var semsagt staðan. 365 átti nokkur tímarit sem gengu hraksmánarlega illa. Baugur stóð líklega á bakvið kaupin á Tímaritaútgáfunni Fróða. Hvers vegna þá að styrkja Reyni í að stofna enn eitt tímaritið?  Ástæðan var einföld. Þeir gátu illa gleypt Fróða gamla án þess að sá biti stæði í samkeppnisstofnun. Sigurður G. var því eigandi á meðan lausn var fundin á vandamálinu.

Og hún fannst fljótlega. Látið var líta út fyrir að litla fyrirtækið Hjálmur sem gaf út Ísafold væri að gleypa stóra fyrirtækið Birting og sagt í fréttum að Hjálmur hefði keypt Birting. Þetta var skínandi lausn. Enginn sagði heldur neitt við þessu. Sko, þetta er frábært. Þarna er litli að gleypa stóra. Ég man ekki til þess að neinn hafi haft eitthvað við þetta að athuga og alls ekki samkeppnisstofnun sem eyddi öllum kröftunum í að lesa allar bækur Halldór Laxness  og Íslensku orðabókina á þessum tíma.

En núna hrynja himnarnir yfir höfuðið á öllum þessum snillingum því þegar maður segir ósatt þá kemst það alltaf upp að lokum því Guð veit það. Hann horfir og hlustar, sérstaklega á blaðamenn sem segja ósatt. Þessu hélt hún amma mín í það minnsta fram. Svo hreyfir hann eitt bifhár í alheimslunganu og þá kemur litli DV maðurinn fram. Svo hreyfist annað og þá kemur Símon Birgisson fram. Símon er nefnilega maður með hjartað á réttum stað þótt hann hafi látið etja sér á foraðið á „bunkertíma“ Mikka, Illuga Jökulssonar og Jónasar Kristjánssonar á DV, og verið eitt helsta verkfærið í æsifréttamennskunni sem þjóðin síðan hafnaði eftir sjálfsvíg einhenta kennarans á Ísafirði.

Og nú er nestorinn sjálfur, hinn mikli refsivöndur íslenskrar blaðamannastéttar,  Jónas Kristjánsson, orðinn uppvís að því að hafa blásið út af ritstjóraborðinu merkilegar fréttir um það hvernig stóra blaðið í eigu Baugs var notað í þágu eigendanna. Ja, mikil eru undrin og stórmerkin. Eða var hann kannski í fríi? Og Mikael segir bara að þeir hafi hafnað mörgum fréttum frá Símoni en man ekkert sérstaklega eftir fréttunum um fréttirnar sem voru geymdar á Fréttablaðinu þar til rétti tíminn kom fyrir eigendurna að birta þær eftir að þeir höfðu látið lögfræðingana sína lesa yfir þær.

Nú þegar púslin í púsluspilinu raðast upp og það er að myndast heiður himinn vegna þessara mála allra kemur í ljós að ritstjórarnir voru aðeins keyptir þjónar, settir á sinn stað til að vernda hagsmuni eigendanna. Fyrir það hafa þeir fengið feit launaumslög eins og lesa má um í Tekjublaði Frjálsrar Verslunar.

Minni ritstjórans Mikka er í meira lagi gruggugt. Þetta var bara eðlilegt. Ekki merkileg frétt segir hann. Nei, honum þótti merkilegri fréttirnar af einhenta skólakennaranum.  Þannig var nú ástandið í Byrginu þeirra Mikka og Jónasar. Og nú kennir JK verðandi blaðamönnum siðareglur í HR.

Hvað gerðist síðan hjá 365 þegar Baugur var búinn að hesthúsa Tímaritaútgáfuna Fróða. Öll tímarit 365 voru lögð niður. Meira að segja Birta, hið vinsæla föstudagsrit Fréttablaðsins hvarf af markaði eins og sólmyrkvi hefði átt sér stað. Ísafold hvarf líka enda var það aldrei ætlun Reynis að vera lengi ritstjóri tímarits um snyrtivörur. Hann hafði verkefni að vinna fyrir sína húsbændur, t.d. við að pönkast á Björgólfi væntanlega til að draga athyglina frá eigin herrum.

Nýjasti snúningurinn er sá að Hreinn Loftsson er sagður hafa keypt Birting. Hann hefur náttúrlega ekki komið nálægt Jóni Ásgeiri frekar en Tryggvi Jónsson. Þarna er enn einn leikurinn á ferðinni. Þegar Jón Ásgeir, sem situr nú dálítið berskjaldaður í skini Rauðsólar sinnar, á orðið einn Fréttablaðið og alla ljósvakamiðlana og fréttaveituna vísi.is, lítur ekki vel út að hann eigi líka tímaritin og DV, sem eru frábært tæki til skoðanamyndunar.  Meira að segja Skakki turninn, tímarit fyrir börn og unglinga, birtir illkvittnar greinar um Davíð Oddsson á sínum síðum.

Og hvað varð um þá Mikael Torfason og Gunnar Smára? Er fjandskapurinn fullkominn á milli þeirra eins og ljósberi sannleikans Reynir Traustason vildi vera láta? Ekki man ég betur en þeir tveir hafi dúkkað upp saman fyrir skemmstu og gert tilboð í leifarnar af Viðskiptablaðinu til að stofna nýjan fjölmiðil, eignarhaldið væntanlega óljóst eins og svo oft áður. Enda nýtt Baugsmál í uppsiglingu og nú þarf hulduherinn að taka til starfa á ný en á öðrum vígstöðvum enda allir hefðbundnu miðlarnir gernýttir og trausti rúnir. Nú gengur sá kvittur um borg og bý að Gunnar Smári sé orðinn svarinn óvinur Jóns Ásgeirs því hann hafi tapað svo miklu af peningunum hans. Bíðið hæg! Voru það ekki peningarnir okkar sem hann tapaði?

Nú spyr ég eins og svo margir. Gerði Reynir Traustason sér ekki grein fyrir því sem gamall skipstjóri að skipper sem ekki heldur sjálfur um stýrið í ólgusjó hættir  því að tapa skipinu með manni og mús?

Skipstjórinn er ekki bara þarna útgerðarinnar vegna. Hásetarnir treysta því að hann standi við stýrið og forði þeim frá strandi og komi þeim heilum á húfi til hafnar. Ritstjóri sem gerist handbendi eigenda sinna er einkis virði fyrir lesendur. Kötturinn með höttinn hafði þó vit á því að taka til eftir sig og koma börnunum til hjálpar þegar leikur hans hafði farið úr böndunum og hann hafði rústað húsinu. Hvað um ábúðarfulla blaðamanninn með hattinn? Gerir hann sér ekki grein fyrir því að leikurinn er farinn úr böndunum í Baugshúsum og nú þarf hann að biðja lesendur sína afsökunar og reyndar þjóðina alla. Síðast en ekki síst skuldar hann litla DV manninum afsökun. Blaðamanninum sem þurfti að gera hljóðupptöku af ritstjóra sínum svo þjóðin uppgötvaði hvað leyndist undir hattinum.

Til handa þeim blaðamönnum sem enn vinna undir ritstjórum sem hafa orðið uppvísir að því að ganga erinda eigenda sinna í stað þess að þjóna lesendum og almannahagsmunum hef ég einungis eitt ráð. Gangið út. Og það strax.

Bjarni Brynjólfsson

 


mbl.is Söknuður á Playboy-setrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband